Færð á Fimmvörðuhálsi

Það fer ekki framhjá okkur að göngufólki kitlar í iljarnar yfir að komast í göngu yfir Fimmvörðuháls en fjöldi fyrirspurna hefur borist um færð á Hálsinum.

Fyrst ber að nefna að leiðbeinandi viðmið göngutímabilsins er 20. júní – 31. ágúst en fer þó eftir aðstæðum hverju sinni.  Skemmst er frá því að segja að aðstæður á Fimmvörðuhálsi hafa batnað umtalsvert á síðastliðnum tveimur vikum, eins og von er á, en þó er talsvert mikill snjór á gönguleiðinni.  Til að mynda eru keðjur enn á kafi í snjó en ísing á norðanverðri gönguleiðinni hefur minnkað mikið undanfarna daga enda hefur verið fremur hlýtt síðastliðna viku eða svo.

Umferð um Fimmvörðuháls hefur að sama skapi aukist síðastliðna daga en vert er að taka fram að gönguleiðin er ekki greiðfær enn sem komið er.  Þeir sem ákveða að leggja í göngu yfir Fimmvörðuháls eru hvattir til að yfirfara búnað og vistir vel, vera vanir vetrarfjallamennsku og fylgjast vel með veðurspám í kringum Fimmvörðuháls en veðrið getur breyst hratt og verið frábrugðið því sem gerist í Skógum og Þórsmörk.  Þessu fengu tveir fjallagarpar að finna fyrir í vikunni þegar þeir lögðu af stað í ágætu veðri frá Básum en sneru við vegna hvassviðris þegar þeir voru komnir að Bröttufönn.  Verður að telja að þeir hafi tekið hárrétta ákvörðun því vænta má að illstætt hafi verið ofar á Hálsinum ef veðurskilyrði voru þetta erfið við Bröttufönn.

Njótið ferðasumarsins og gefið ekki afslátt af öryggi í ferðamennsku.  Fréttir af færð verða birtar reglulega þar til gönguleiðin verður greiðfær.

All rights reserved - Theme from Accesspress Copyright: Guðmundur Örn Sverrisson - Fimmvorduhals.is