Laugavegur

Gönguna milli Landmannalauga og Þórsmerkur, Laugaveg, þarf vart að kynna.  Gangan er um 55 kílómetra löng og liggur fram hjá fjórum skálum, auk skálanna í Langadal og Landmannalaugum, sem allir eru í eigu Ferðafélags Íslands.

Oftar en ekki er göngunni skipt upp í fjóra leggi sem gengnir eru á jafn mörgum dögum en þá er haldið frá Landmannalaugum í Hrafntinnusker fyrsta daginn.  Gangan er um 12 kílómetrar og hækkun um 400 metrar.  Leggur tvö er frá Hrafntinnuskeri í Álftavatn og er sú ganga einnig um 12 kílómetrar.  Þaðan liggur leiðin fram hjá Hvanngili inn í Emstrur en sú ganga er hátt í 16 kílómetra löng.  Síðasti leggur göngunnar er frá Emstrum inn í Þórsmörk en sú ganga er um 15 kílómetrar.

Þá er hægt að bæta við smá spöl úr Langadal í Bása sé göngufólk með gistingu þar en á báðum stöðum er hægt að tjalda og bóka skálagistingu en mælt er með að bóka svefnpokapláss í skálum með góðum fyrirvara.

All rights reserved - Theme from Accesspress Copyright: Guðmundur Örn Sverrisson - Fimmvorduhals.is