3. hluti

Þriðji hluti

Við Fimmvörðuskála er næsthæsta punkti göngunnar náð en sé gengið á Magna er farið nokkrum metrum hærra.  Frá skálanum að nýjum gosstöðvum er gengið að miklu leiti á fönn og þegar líða tekur á sumarið getur fönnin rofnað vegna bráðnunar, en sumarið 2013 gerðist það um miðjan júlí.  Rann þá vatn undir fönninni sem bræddi smám saman snjóinn svo úr varð löng, djúp sprunga.  Þurfti þá að krækja fyrir hana vestan megin við upptök vatnsrennslisins.

Gengið er nokkurn spöl á fönn þar til komið er að Goðahrauni, hinu nýja hrauni sem rann við eldgosið árið 2010 í átt að gosstöðvunum.  Þegar komið er að þeim er fyrst komið að Magna, síðan Móða.  Stutta samantekt um nafngiftir er að finna hér.  Hægt er að ganga á annan hvorn, báða eða krækja fyrir þá og eru gönguleiðir vel greinilegar.  Gaman er að koma að gosstöðvunum þar sem hraunið er enn heitt og litirnir fallegir.  Frá Magna og Móða er svo gengið að Bröttufönn en stuttu áður en komið er að henni er gengið fram á minnisvarða.  Brattafönn hefur rýrnað talsvert á síðustu árum og nánast verið snjólaus seint á sumrin.

Stuttu eftir að komið er niður Bröttufönn þarf að fara yfir Heljarkamb í átt að Morinsheiði.  Þó svo að þessi partur leiðarinnar geti vissulega verið þungur yfirferðar fyrir lofthrædda eru allflestir sammála um að nafngiftin er mun hrikalegri en leiðin sjálf.  Settar hafa verið upp keðjur, göngufólki til stuðnings, til þess að komast niður að kambinum.

Handan Heljarkambs er Morinsheiði, slétt heiðarflæmi sem gengið er yfir.  Ætli göngumenn sér að ganga niður Hvanngil er ekki farið upp á heiðina sjálfa heldur beygt af til vinstri við skiltaprest.  Norðanmegin heiðarinnar er Heiðarhorn sem minnir á vin í eyðimörkinni, gróðursælt og ólíkt Morinsheiði sjálfri.  Frá Heiðarhorni er afskaplega fallegt útsýni yfir Þórsmörk, Goðaland og í raun drjúgan hluta Fjallabaks.  Hægt er að ganga á Útigönguhöfða frá Morinsheiði og er skilti merkt Útigönguhöfða við afleggjarann.  Hafa skal í huga að velja réttan afleggjara af Morinsheiði en sá hefðbundni er þar sem Morinsheiði og Heiðarhorn mætast.

All rights reserved - Theme from Accesspress Copyright: Guðmundur Örn Sverrisson - Fimmvorduhals.is