1. hluti

Fyrsti hluti

Göngu á Fimmvörðuháls er oft skipt í fjóra hluta.  Sé gengið frá Skógum hefst gangan austan megin við Skógafoss en þar er búið að koma fyrir þrepum auk þess sem útsýnispalli var komið fyrir efst á fossbrúninni haustið 2012.  Ágætt er, fyrir þá sem eru minna vanir, að hafa í huga að fara heldur hægar en hraðar upp þrepin, en þau eru hátt í 400 talsins.  Séu þrepin tekin á hóflegum hraða er um góða upphitun fyrir gönguna að ræða en varast ber að ofreyna sig í upphafi göngu.  Næst tekur við ganga upp Skógaheiði en gengið er austan megin við Skógaá þar til komið er að göngubrú yfir ánna en sú ganga telst fyrsti hluti.  Á göngu upp Skógaheiði ber fyrir augu allmargir fossar sem gefa göngunni ákaflega skemmtilegan blæ og eru mikið augnayndi.  Nánar er fjallað um fossana hér.

Lengd fyrsta hluta er um 8.2 km, hækkun er um 586 metrar.  Gönguhækkun er 707 metrar.  Um talsverða hækkun er að ræða en ef undan er skilin fyrsta brekkan er bratti gönguleiðarinnar ekki svo mikill.

Athugið að gott er að ganga útfrá því að við göngubrúna sé síðasti öruggi staður göngunnar þar sem hægt er að fylla á vatn.

All rights reserved - Theme from Accesspress Copyright: Guðmundur Örn Sverrisson - Fimmvorduhals.is